Alls liggja sjö inni á Landspítala með RS-veirusýkingu, þar af eru þrír tveggja ára eða yngri og fjórir í aldurshópnum 65 ára og eldri.
Greiningum RS-veirusýkinga fjölgaði í viku 47 að því er fram kemur í tilkynningu frá Embætti landlæknis. Alls greindust 47 með RS-veiruna og er meirihluti þeirra börn yngri en tveggja ára.
Þrír greindust með inflúensu í viku 47, allir með inflúensutegund A(H3) og í aldurshópnum 15–64 ára. Einn lá á Landspítala með inflúensu.
Í þessari viku greindust sex einstaklingar með kórónuveiruna og voru þrír þeirra eldri en 65 ára. Þrír lágu inni á Landspítala með kórónuveiruna.
Um helmingur sem greindist með öndunarfæraveirusýkingu, aðra en kórónuveiruna, inflúensu eða RS-veirusýkingu, greindist með rhinoveiru (kvef). Fjöldi öndunarfærasýna sem fór í veirugreiningu hefur verið stöðugur undanfarnar vikur. Hlutfall jákvæðra sýna af heildarfjölda sýna þokast áfram upp á við og var rúm 39% í viku 47.
Dregið hefur úr fjölda greininga á kíghósta á undanförnum vikum og mánuðum en greiningar höfðu aukist til muna á fyrri hluta ársins. Kíghósti á það einnig til að koma í faröldrum á 3–5 ára fresti að því er segir í tilkynningunni.