Karlmaður var í dag, fimmtudag, dæmdur í tveggja ára og fjögurra mánaða fangelsi í Landsrétti fyrir nauðgun árið 2022 með því að hafa stungið getnaðarlim sínum upp í samstarfskonu eiginkonu sinnar þar sem samstarfskonan sat á klósetti á salerni skemmtistaðar og gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar.
Var maðurinn enn fremur dæmdur til að greiða fórnarlambi sínu tvær milljónir króna í miskabætur, en Landsréttur rakti í dómi sínum að misræmis hefði gætt í framburði ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi og var framburður hans metinn ótrúverðugur.
Framburður brotaþola um aðalatriði málsins var hins vegar metinn stöðugur og skýr auk þess sem hann var studdur framburði vitna sem gáfu sig á tal við brotaþola.
Fundust lífsýni úr brotaþola á getnaðarlim ákærða og á innanverðum nærbuxum hans, en hann bar því við fyrir dómi að um snertismit hefði verið að ræða með þeim hætti að hann hefði snert höku brotaþola og síðar haft þvaglát og lífsýni hennar þá færst af hendi hans á getnaðarlim hans. Brotaþoli kúgaðist við að fá getnaðarlim ákærða upp í sig og seldi hún upp yfir sokkabuxur sínar og skó en við það fór ákærði sem handtekinn var á heimili þeirra eiginkonu hans um nóttina.
Fyrir héraðsdómi var ákærði sýknaður í janúar, meðal annars á þeirri forsendu að sáðfrumur í munnholi brotaþola gætu tengst öðru ótengdu atviki sem gerst hefði á undan, þó ekki meira en 20 klukkustundum áður að mati sérfræðings.