„Það er tvísýnt með færð á láglendi á laugardag“

Gert er ráð fyrir hríðarveðri á Austfjörðum og Austurlandi á …
Gert er ráð fyrir hríðarveðri á Austfjörðum og Austurlandi á laugardag. Ljósmynd/Landsbjörg

Það gæti brugðið til beggja vona með aðgengi að kjörstöðum í Norðausturkjördæmi á laugardaginn, þegar kosið verður til Alþingis. Spáð er aftakaveðri á svæðinu og tvísýnt verður með færð á milli staða á láglendi.

Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands hvetur Austfirðinga til að huga að því að kjósa utan kjörfundar hafi það kost á því.

„Það er allavega alveg vert fyrir fólk að huga að því hvort það geti kosið utankjörfundar. Ég ætla ekki að fullyrða um að það verði ekki hægt að kjósa á laugardag, en það er vert að huga að þessu,“ segir Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Veður verst á Austfjörðum og Austurlandi

Í byrjun vikunnar leit út fyrir að veðrið yrði hvað verst á Norðvesturlandi á kjördag en spáin hefur breyst og nú stefnir í að veðrið verði verst á Austfjörðum og Austurlandi. Einnig má gera ráð fyrir dimmum éljum á Vestfjörðum.

„Það hvessir og byrjar að snjóa á Suðausturlandi annað kvöld og er útlit fyrir hríð. Síðan fara skilin norður eftir Austfjörðum þegar líður að miðnætti annað kvöld. Það verður hríðarveður á Austfjörðum aðfaranótt laugardags og svolítið inn á Austurland. Það verður svolítil snjókoma líka en ekki alveg jafn hvasst. Svo verður snjókoma á Norðurlandi en þar verður hægari vindur. Síðan fer að draga úr snjókomu seinnipartinn en áfram verður hvasst og líkur á skafrenningi,“ segir Eiríkur um veðrið á laugardag. 

„Einnig hvessir svolítið á Vestfjörðum líka með einhverjum éljagangi þannig að það gæti orðið dimmt í éljum þar á laugardaginn. Það er að bætast við, en alls ekki jafn slæmt og á Austfjörðum,“ segir hann jafnframt.

Úrkomuspá á laugardaginn klukkan 10.
Úrkomuspá á laugardaginn klukkan 10. Kort/Veðurstofa Íslands

Áfram hvasst þó dragi úr úrkomu

Aðspurður hvort um sé að ræða það vont veður að vegir lokist alveg og að fólk komist jafnvel ekki á kjörstað, segir Eiríkur alltaf hættu á lokunum vega í slíku hríðarveðri. 

Ástandið verði litlu skárra á láglendi en á fjallvegum og þó dragi úr úrkomu verði áfram hvasst og mikill skafrenningur, sem geti hamlað för fólks á milli staða. 

„Það er snjókoma og skafrenningur, lélegt skyggni. Þetta á auðvitað sérstaklega við um fjallvegi en það er líka útlit fyrir hríðarveður á láglendi framan af laugardeginum. Auðvitað hefur það áhrif, það getur orðið erfitt að komast á milli staða, jafnvel á láglendi. Það verður heldur ekki skemmtilegt veður þó það dragi úr úrkomu, það verður enn þá það hvasst að það má gera ráð fyrir að snjórinn verði enn þá á ferð í skafrenningi,“ segir Eiríkur.

„Það er tvísýnt með færð á láglendi á laugardag,“ ítrekar hann.

„Það verður hríð, það er alveg á hreinu“

„Þetta er svona veður þar sem er oft betur heima setið. Á hefðbundnum laugardegi væru sjálfsagt allir bara að fá sér kakóbolla. Þetta er ekki mannskaðaveður eða neitt slíkt, bara leiðinlegt vetrarveður.“

Eiríkur segir spána fyrir laugardaginn orðna nokkuð áreiðanlega þó vissulega geti orðið einhver blæbrigðamunur á veðri. „En það verður hríð, það er alveg á hreinu. Ég get sagt það með nokkuð góðri vissu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka