Landsréttur hefur staðfest sýknudóm yfir fjárfestinum Þórði Má Jóhannessyni og Sólveigu Guðrúnu Pétursdóttur, fyrrverandi dómsmálaráðherra, í Gnúpsmálinu svokallaða.
Vísar Landsréttur í dómi sínum í forsendur dóms héraðsdóms og segir að gögn málsins styðji ekki fullyrðingar forsvarsmanns félagsins Lyfjablóms um að beitt hefði verið blekkingum þannig að félagið hefði orðið fyrir tjóni upp á 2,3 milljarða.
Líkt og mbl.is hefur áður fjallað um er um að ræða einkamál þar sem félagið Lyfjablóm (áður Björn Hallgrímsson ehf.) krafði Þórð Má og Sólveigu, sem situr í óskiptu búi eiginmanns síns heitins, Kristins Björnssonar, um samtals 2,3 milljarða. Voru þau Þórður og Sólveig sýknuð í héraði og nú aftur í Landsrétti.
Félagið Björn Hallgrímsson átti á sínum tíma tæplega helmingshlut í fjárfestingafélaginu Gnúpi og var eitt stærsta fjárfestingafélag landsins fyrir hrun. Var Kristinn í forsvari fyrir fjölskyldufyrirtækið.
Málið hafði áður farið fyrir héraðsdómi árið 2019 þar sem Þórður og Sólveig voru sýknuð á grundvelli tómlætis og fyrningarlaga.
Þeirri niðurstöðu var áfrýjað til Landsréttar sem ómerkti dóm héraðsdóms þar sem ekki var talið unnt af hálfu Þórðar og Sólveigar að haga málatilbúnaði sínum þannig að sakarefni málsins yrði skipt, þ.e. um grundvöll skaðabótaábyrgðar annars vegar og fyrningu hins vegar, þar sem þau atriði féllu verulega saman. Af þeim sökum var dómur Héraðsdóms Reykjavíkur árið 2019 ómerktur og málinu vísað aftur í hérað.
Þórður og Sólveig voru aftur sýknuð í héraði eftir að málið hlaut efnislega meðferð.
Fyrir Landsrétti kom upp nokkuð sérstök staða þar sem allir dómarar Landsréttar voru taldir vanhæfir til að dæma í málinu vegna starfa dómarans Aðalsteins E. Jónassonar fyrir Gnúp á sínum tíma. Var rétturinn því skipaður settum dómurum, en þau voru Einar Karl Hallvarðsson, héraðsdómari og fyrrverandi ríkislögmaður, Hlynur Jónsson héraðsdómari og Sigrún Guðmundsdóttir, fyrrverandi héraðsdómari.
Þórður hafði verið forstjóri félagsins Gnúps, en krafa var gerð á Sólveigu vegna dánarbús eiginmanns hennar, Kristins Björnssonar, sem hún situr í óskiptu. Kristinn hafði farið fyrir fjárfestahópi fjögurra systkina sem áttu félagið Björn Hallgrímsson ehf. sem var einn af eigendum Gnúps, en félagið hét eftir föður systkinanna. Eftir fall Gnúps var nafni Björns Hallgrímssonar breytt í Lyfjablóm og höfðaði félagið málið gegn Þórði og Sólveigu.
Sonur Áslaugar Björnsdóttur, einnar systurinnar, Björn Thorsteinsson, keypti félagið Björn Hallgrímsson ehf. af slitabúi Glitnis eftir að bankinn hafði áður tekið félagið yfir. Hefur hann staðið í málaferlum vegna þess hvernig uppgjörið var sem og viðskipti áður en félagið var tekið yfir.
Fyrr í dag sendi Björn, forsvarsmaður Lyfjablóms, frá sér tilkynningu þar sem hann sagði lögregluna hafa tekið til rannsóknar meint ljúgvitni tveggja vitna í málaferlum félagsins. Er þar um að ræða þá Helga F. Arnarsyni, endurskoðanda hjá KPMG, og Stefáni Bergssyni, fyrrverandi endurskoðanda hjá PwC, en Stefán starfaði fyrir Lyfjablóm áður fyrr. Björn segir í yfirlýsingu að þetta sé gert vegna rökstudds gruns um að mennirnir hafi borið ljúgvitni fyrir dómi.