Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að ný verðbólgumæling Hagstofu Íslands séu mikilvægar fréttir fyrir kaupmátt landsmanna og þá sem eru með verðtryggð lán.
Þetta segir Bjarni í færslu á Facbook en tólf mánaða verðbólga mælist nú 4,8% og lækkar um 0,3 prósentustig frá fyrri mánuði.
„Síðustu mánuði hefur verðbólga verið í frjálsu falli. Hún var 8% fyrir ári, 6,4% í júlí og 5,1% í október. Í dag birtast verðbólgutölur fyrir nóvember og eru spár samhljóða um að verðbólgan sé enn á niðurleið. Gert er ráð fyrir að verðlag lækki milli mánaða og rætist spárnar hefur verðlag hækkað um innan við 1% á hálfu ári,“ segir Bjarni.
Bjarni segir að allt bendi til þess að verðbólgan sé á niðurleið og verði komin nálægt verðbólgumarkmiði snemma á næsta ári. Hann segir að verðbólguvæntingar gefi slíkt til kynna og þær hafa farið hríðlækkandi í ár. Þá segir Bjarni að árangur aðhalds í ríkisfjármálum og ábyrgra kjarasamninga á vinnumarkaði sé að skila markverðum árangri og að árið 2025 gæti orðið ár vaxtalækkana.
„Rangar ákvarðanir geta hins vegar hæglega stýrt okkur af leið. Í Bretlandi eru skattahækkanir að hægja á vaxtalækkunum og á evrusvæðinu varar evrópski seðlabankinn við nýrri skuldakreppu. Á sama tíma vilja flokkar sem beinlínis byggja á skattahækkunum og ESB-aðild komast til valda á Íslandi,“ segir Bjarni.