Það var brunagaddur víða um landið í nótt og á mörgum stöðum mældist yfir 20 stiga frost.
Á Grímstöðum á Fjöllum fór frostið niður í 24,1 stig, í Möðrudalnum mældist 23,6 stiga frost og á Fljótdalsheiði fór frostið niður í 22,1 gráðu.
Samkvæmt spá Veðurstofu Íslands dregur úr frosti í dag og það bætir í vind. Víða verður snjókoma í kvöld en úrkomulítið verður á Norðvestur- og Vesturlandi.
Á morgun, kosningadaginn, gengur í norðaustan 13-20 m/s og verður hvassast á Suðausturlandi. Á Austurlandi er spáð talsverðri snjókomu og skafrenningi og gæti færð spillst bæði á Austfjörðum og á Suðausturlandi.