Eldgosið sem hófst á Reykjanesskaga fyrir rúmri viku er næststærsta gosið að rúmmáli af þeim eldgosum sem hafa orðið á Sundhnúkagígaröðinni síðan í desember 2023.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands en þar segir að sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar hafi verið við mælingar á gosinu í gær og voru niðurstöður þeirra að hraunbreiðan sem hefur myndast í þessu gosi sé orðin 47 milljón rúmmetrar og rúmlega fimm metra þykk.
Litlar breytingar eru á stöðu gossins og hefur virkni verið stöðug í nótt líkt og undanfarna daga. Sömuleiðis eru litlar breytingar á gosóróa.
Aflögunarmælingar á Svartsengissvæðinu sýna einnig litlar breytingar á milli daga sem bendir til þess að innstreymi í kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi sé sambærilegt við flæðið úr eldgosinu.
Hraunflæðið streymir í suðaustur átt að Fagradalsfjalli.
Gera má ráð fyrir áframhaldandi gasmengun frá eldgosinu næstu daga. Mengunin getur valdið óþægindum eða verið óholl og á það sérstaklega við á gönguleiðum við Fagradalsfjall og nálægt gosstöðvunum.
Mælingar sérfræðinga Veðurstofunnar mældu að um 64 til 71 kg/ af brennisteinsdíoxíð (SO2) streymdi frá eldgosinu.