Styrkur svifryks (PM10) er hár á nokkrum mælistöðvum í borginni í kjölfar morgunumferðar í dag. Almenningur er hvattur til þess að draga úr notkun einkabílsins ef unnt er.
Vindhraði var aðeins um tveir metrar á skúndu samkvæmt athugun á vef Veðurstofunnar kl. 12 í dag og er gert ráð fyrir hægum vindi í allan dag.
Klukkan 12 var klukkustundargildi svifryks við Grensásveg 158 míkrógrömm á rúmmetra og 145 míkrógrömm á rúmmetra í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.
Þar sem aðeins er hægur vindur, götur þurrar og ekki líkur á úrkomu í dag er líklegt að styrkur svifryks fari hækkandi í tengslum við eftirmiðdagsumferðina, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkuborg.
Þá segir, að gerst sé ráð fyrir svipuðu veðri næstu daga og því líkur á að styrkur svifryks verði áfram hár og þjóðvegir í þéttbýli og helstu stofngötur verði því rykbundnar í nótt til að draga úr uppþyrlun.
Rykbinding er samvinnuverkefni Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar.
„Almenningur er hvattur til þess að draga úr notkun einkabílsins ef unnt er, s.s. geyma ferðir sem ekki eru aðkallandi, nýta sér frekar almenningssamgöngur, sameinast í bíla eða nota aðra vistvæna samgöngumáta. Skorað er á fyrirtæki að hvetja starfsfólk til að vinna fjarvinnu sé þess kostur og draga úr akstri ef hægt er. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum, aldraðir og börn ættu að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu í nágrenni stórra umferðagatna,“ segir í tilkynningunni.
Enn fremur segir, að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna á loftgæði.is.