Gular veðurviðvaranir eru í gildi á Austfjörðum og Suðausturlandi vegna norðaustan hríðar en talsverði snjókomu er spáð á þessum svæðum í dag.
Viðvörunin er í gildi á Austfjörðum til klukkan 21 í kvöld en hún rennur úr gildi á Suðausturlandi klukkan 8.
Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands segir að í dag verði yfirleitt fremur hægur vindur og skýjað með köflum, en norðaustan 10-18 m/s og dálítil snjókoma við suðausturströndina. Það er kalt í veðri og frostið bítur í á mörgum stöðum.
Seinni partinn bætir smá saman í vind. Það þykknar upp og dregur úr frosti og í kvöld verður farið að snjóa víða um land. Á Norðvestur- og Vesturlandi ætti þó að haldast úrkomulítið.
Á morgun er útlit fyrir allhvassa eða hvassa norðaustanátt með snjókomu og skafrenningi á austurhelmingi landsins, þar eru talsverðar líkur á að færð spillist, einkum á fjallvegum. Á norðvestanverðu landinu verður úrkoman líklega éljakenndari og suðvestanlands ætti að hanga þurrt. Frost 0 til 7 stig.