Um 130 tíundu bekkingar úr nokkrum grunnskólum í Reykjavík munu koma saman í Hörpu í dag, föstudag, á Lýðræðishátíð unga fólksins.
Í tilkynningu frá Almannaheillum, sem stendur að lýðræðishátíðinni, segir að ungmennin muni þar fá æfingu í að taka afstöðu til málefna og tækifæri til að taka þátt í umræðuhópum.
Hátíðin er haldin í tengslum við Fund fólksins, ráðstefnu Almannaheilla, sem fer fram milli klukkan 14 og 18 í Hörpu í dag, þar sem leitast er við að efla lýðræði og samfélagsþátttöku með samtali milli frjálsra félagasamtaka, stjórnmálafólks og almennings.
Í tilkynningu Almannaheilla kemur fram að markmið Lýðræðishátíðar unga fólksins sé að efla ungt fólk í því að taka afstöðu til þess sem eru til umræðu í þjóðfélaginu.
„Það á vel við að halda hátíðina daginn fyrir þingkosningar, þegar þjóðin öll þarf að taka afstöðu til fjölda málefna. Nemendurnir fá tækifæri til að ræða og taka afstöðu til fjögurra málefna. Þau eru símalausir skólar, inntaka í framhaldsskóla og samræmd próf, kosningaréttur fyrir 16 ára og samgöngumál; strætó og borgarlína,“ segir í tilkynningunni.
Í tilkynningunni kemur fram að Reykjavíkurborg hafi lánað kjörkassa til kosninganna, og þá hafa verið prentaðir út kjörseðlar. Enga flokksbókstafi er þó að finna á kjörseðlum unga fólksins heldur eiga þau að setja X við það málefni sem þeim þykir skipta mestu máli.
Unga fólkið á sviðið fyrir hádegi en eftir hádegi fer Fundur fólksins fram í Hörpu og stendur dagskráin yfir milli kl. 14 og 18.
<Þar mun kenna ýmissa grasa, en bálstofur, geðheilbrigðismál, velferð barna, starfsumhverfi almannaheillafélaga, forvarnir gegn krabbameinum og kosningahegðun Íslendinga eru á meðal þeirra fjölda umfjöllunarefna sem rædd verða á Fundi fólksins.
Þá verða fimmtán almannaheillafélög með kynningarbása og alls taka um 30 félög þátt í viðburðinum.
Lokahnykkur ráðstefnunnar eru pallborðsumræður stjórnmálaflokkanna, og segir í tilkynningunni að það séu líklega síðustu pallborðsumræðurnar fyrir kosningar sem almenningur hefur kost á að sækja.
Fundur fólksins og Lýðræðishátíð unga fólksins eru styrkt af Reykjavíkurborg og Félags- og vinnumálaráðuneytinu. Fundur fólksins er öllum opinn meðan húsrúm leyfir og frítt er á alla viðburði dagsins.