Veðurútlitið fyrir morgundaginn, þegar kosið verður til Alþingis, er alls ekki gott en spáð er leiðindaveðri víða um landið með hríðarveðri og sterkum vindi á norður- og austurhelmingi landsins.
Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir við mbl.is að eftir hádegi á morgun taki í gildi gular veðurviðvaranir á Austurlandi að Glettingi, Norðurlandi og Norðurlandi vestra og á þessum svæðum verði komið leiðindaveður strax í fyrramálið.
Hann segir að á austurhelmingi landsins megi búast við snjókomu og skafrenningi og á Suðausturlandi og á Austfjörðum séu líkur á að færð geti spillst. Það gæti því brugðið til beggja vona um aðgengi fólks að kjörstöðum á þessum svæðum.
„Það lítur ekki vel út með kjördaginn. Það verður bara leiðindaveður víða um landið. Það verður bæði kalt og vindasamt og töluverð mikil snjókoma sem verður mest á austanverðu landinu en líka á norðanverðu landinu. Á Vestfjörðum verður éljagangur en á vesturhelmingi landsins ætti að verða þurrt en kuldanæðingur,“ segir Teitur við mbl.is.