Ölfusá ekki hærri síðan 2020

Ölfusá kolstífluð af myndrænum og jólalegum íshrönnum. Hærra hefur ekki …
Ölfusá kolstífluð af myndrænum og jólalegum íshrönnum. Hærra hefur ekki verið í ánni síðan covid-árið 2020. Ljósmynd/Einar Sindri Ólafsson

„Um síðustu helgi höfðu miklar íshrannir safnast upp í ánni sem hún náði að ryðja af sér á þriðjudaginn. Svo frysti aftur í gær og áin hefur greinilega stíflast aftur vegna ísingar,“ segir Einar Sindri Ólafsson, jarðfræðingur hjá verkfræðistofunni EFLU og Selfyssingur í húð og hár, sem við fjórða mann er einn innstu koppa í búri Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands á Facebook.

Á áttunda tímanum í kvöld birtust í hópnum tilkomumiklar drónamyndir af víðáttumikilli – og kannski dálítið jólalegri – ísstíflu í Ölfusá og fylgdi sögunni að þær hefðu verið teknar um klukkan 18. Hafi vatnshæð við vatnshæðarmælinn V64 þá verið komin upp í fjóra metra og ekki verið hærri síðan árið 2020.

Gerist á nokkurra ára fresti

„Áin er smekkfull af ís eins og er, upp fyrir brú og alla leið upp að Jórukletti,“ heldur Einar Sindri áfram en hann hefur marga fjöruna sopið á vettvangi íslenskrar náttúruvár, starfað kringum varnarmannvirki og viðgerðir í Svartsengi og Grindavík og er því öllum hnútum kunnugur.

Jarðfræðingurinn Einar Sindri ýkir ekki þegar hann segir Ölfusá smekkfulla …
Jarðfræðingurinn Einar Sindri ýkir ekki þegar hann segir Ölfusá smekkfulla af ís. Ljósmynd/Einar Sindri Ólafsson

„Það var orðið býsna hátt í ánni, en þetta er ekkert óeðlilegt og gerist á nokkurra ára fresti, ætli við þurfum ekki bara að fylgjast vel með þessu, yfirleitt fer hún að ryðja sig þegar ákveðið hámark eða þröskuldur næst,“ útskýrir jarðfræðingurinn.

Aðspurður kveður hann náttúruvárhóp Suðurlands á Facebook fyrst og fremst áhugamannasíðu þeirra fjórmenninga um jarðfræði og jarðfræðitengda atburði „og við viljum bara deila með öðrum, þetta var lítill hópur fram að fyrsta gosinu, í Geldingadölum, en fylgjendahópurinn stækkaði mikið eftir það, við vorum að fræða fólk og segja frá því á mannamáli hvað væri að gerast niðri í jörðinni“, segir Einar Sindri en jarðfræðingarnir fjórir eru þeir Daníel Freyr Jónsson, Ragnar Sigurðarson og Stefán Á. Þórðarson, auk viðmælandans hér vitanlega.

„Hér er ein af mér í mínu náttúrulega umhverfi,“ skrifar …
„Hér er ein af mér í mínu náttúrulega umhverfi,“ skrifar jarðfræðingurinn Einar Sindri í tölvupósti með þessari mynd. Upp í hugann kemur náttúrulýsing úr Íslandsklukku skáldsins á Gljúfrasteini frá heimsókn Jóns Hreggviðssonar til séra Snorra á Húsafelli, „það var einsog hér ætti landið heima“. Ljósmynd/Einar Sindri Ólafsson

Fullkomnir jarðfræðinördar

Allir starfa þeir fjórmenningar á vettvangi jarðfræði, Einar Sindri sem áður greinir, Daníel Freyr hjá Umhverfisstofnun, Ragnar hjá verkfræðistofunni Mannviti og Stefán miðlar fræðunum í grunnskólakerfinu.

„Við tengjumst þessu allir einhvern veginn og svo förum við heim á kvöldin og grúskum í einhverju öðru innan jarðfræði,“ segir Einar Sindri Ólafsson jarðfræðingur og hlær við – sannfærir blaðamann undir lokin um að þeir félagarnir muni fylgjast grannt með þróun mála í Ölfusá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka