Uppfærð spá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um íbúðaþörf gerir stöðuna á húsnæðismarkaði hér á landi enn verri en áður var talið. Án viðeigandi uppbyggingar geti skapast verulegur framboðsskortur, sem muni ekki aðeins auka þrýsting á fasteigna- og leigumarkað, heldur einnig hafa neikvæð áhrif á húsnæðisöryggi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá HMS sem uppfærði spá um íbúðaþörf í kjölfar uppfærðrar mannfjöldaspár Hagstofunnar. Þar er gert ráð fyrir meiri mannfjölgun og hraðari öldrun þjóðar en áður var spáð.
Samkvæmt uppfærðri spá telur HMS að byggja þurfi um 4.500 til 5.000 íbúðir á ári fram til ársins 2050 til þess að sinna íbúðaþörf, en fyrra mat benti til þess að árleg íbúðaþörf væri nær 4.000 íbúðir.
Meðalfjöldi íbúða á ári hefur verið í kringum 3.000 síðustu ár og íbúðatalning HMS sýnir fram á að það verði umtalsverð fækkun á nýbyggingum árið 2026. Því er útlit fyrir að uppbyggingin nái ekki að halda í við þörfina til lengri tíma.
Uppfærð mannfjöldaspá Hagstofunnar sýnir fram á hraðari mannfjölgun en áður sem mun leiða til enn frekari eftirspurnar eftir húsnæði á næstu áratugum.
Áður var talið að fjöldi Íslendinga yfir sextugu myndi fara fram úr fjölda þeirra undir tvítugu árið 2049 en samkvæmt nýrri mannfjöldaspá mun sú breyting eiga sér stað átta árum fyrr, eða árið 2041.
Þá mun meðalstærð heimila minnka hraðar en gert var ráð fyrir með færri börnum og aukinni lífslengd.
Uppfærð spá HMS á heimilisstærð til ársins 2050 áætlar að íbúum í hverri íbúð fækki nú úr 2,4 niður í 1,9 til 2,1. Heimilisstærð yrði 2,1 ef aldursdreifing hér á landi verður í samræmi við nýju mannfjöldaspá Hagstofu og Ísland fylgir sömu þróun og hin Norðurlöndin.
Heimilisstærð yrði hins vegar 1,9 ef Ísland myndi einnig vinna á móti þeirri íbúðaskuld sem hefur safnast upp á síðustu árum, en HMS telur að hún nemi á bilinu 10 til 15 þúsund íbúðum.
Spár HMS um minnkandi heimilisstærð og ný mannfjöldaspá Hagstofu benda til þess að þörf verði á um 4.500 til 5.000 nýjum íbúðum á ári til ársins 2050 til að mæta bæði fólksfjölgun og minnkandi heimilisstærð.