Ari Karlsson, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, segir að hann muni taka stöðuna á kjörstjórnum þegar líða tekur á daginn en slæmt veður og færð á norður- og austurhelmingi landsins gæti sett strik í reikninginn í Alþingiskosningum, bæði hvað varðar aðgengi fólks að kjörstöðum og eins að koma kjörkössum á talningarstað.
Ari segist hafa haft samband við fólk í Árneshreppi og á Ströndum í morgun en þá hafði ekki snjóað þar en nokkuð mikill vindur og það eigi að bæta í hann upp úr hádegi.
„Aðalmálið er að fólk geti kosið en það hvernig atkvæðin koma hingað í Borgarnes er minna mál í okkar huga. Við fylgjumst grannt með veðri og færð og sjáum til þegar líða fer á daginn hvernig málin þróast. Það er leiðindaveður víða í kjördæminu en við erum heppin að það er enginn snjór fyrir vestan og á Ströndum. Væri snjór á þessum stöðum værum við í meiri vandræðum,“ segir Ari.
Ari segir að miðað sé við að atkvæði verði talin á sama tíma en til þess þurfi að fá þau í hús. Hann segir að kjörfundi ljúki á mismunandi tíma í kjördæminu en stærstu kjörstaðirnir verði opnir til klukkan 22 í kvöld. Í Ísafirði lokar kjörfundur klukkan 21 og klukkan 20 á fjörðunum í kring. Á minni kjörstöðum eins og í Árneshreppi lýkur kjörfundi klukkan 15.