„Ég er vel stemmd. Þetta er allt öðruvísi en maður upplifði árið 2021. Við höfum fengið mikinn meðbyr og maður vonar að það skili sér í kjörkassann en maður veit aldrei hvað kemur upp úr þeim.“
Þetta segir Lilja Hrönn Önnudóttir Hrannarsdóttir, forseti ungs jafnaðarfólks, í samtali við mbl.is á kosningavöku Samfylkingarinnar í Kolaportinu. Lilja Hrönn skipar jafnframt 8. sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Samfylkingin er búin að mælast stærsti flokkurinn í mörgum könnunum, bindur þú vonir við að það verði niðurstaðan í kvöld?
„Jú, maður bindur vonir við það og að við verðum í þeirri stöðu að geta myndað ríkisstjórn með flokkum sem eru með svipaða hugsjón og við eftir þessar kosningar.“
Kolaportið fer að fyllast af stuðningsfólki, hvernig býst þú við að stemningin verði hér í kvöld?
„Ég held hún verði klikkuð. Ég trúi ekki öðru. Fyrstu tölur eru ekki komnar og hér er nýtt fólk á hverju strái þannig ég býst ekki við öðru en geðveikri stemmningu og lofa henni eiginlega.“
Að lokum þakkar Lilja Hrönn öllum sem hafa tekið þátt í kosningabaráttunni með einum eða öðrum hætti.