Einn einstaklingur festist í rútu sem fór út af við Fróðárheiði á Snæfellsnesi fyrr í dag. Hann ásamt öðrum var fluttur á sjúkrahús með þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Þetta staðfestir Ásmundur Kristinn Ásmundsson, yfirlögregluþjónn á Vesturlandi.
„Það er flughált og mikið rok og hún fer þarna út af og einn farþegi festist,“ segir Ásmundur í samtali við blaðamann mbl.is.
Hann segir restina af farþegunum, sem námu um 25 manns, hafa verið flutta í fjöldahjálparmiðstöð Rauða krossins á Ólafsvík. Þaðan sé verið að flytja fjóra einstaklinga á slysadeild.
Ein fjölskylda hafi sjálf yfirgefið vettvang áður en að björgunaraðila bar að garði. Þau virðist hafa húkkað sér far á hótel í Borgarnesi en viðbragðsaðilar hafi síðar náð sambandi við þau til að kanna hvort væri í lagi með þau.
Kveðst Ásmundur ekki hafa upplýsingar um hvort um innlenda eða erlenda ferðamenn hafi verið að ræða en að málið sé nú í rannsókn.
Lögreglan á Akranesi og Borgarnesi, sjúkralið, Landhelgisgæslan og björgunarsveitirnar Brák og Lífsbjörg hafi sinnt viðbragðsstörfum.