„Þetta var nú bara allt til gamans gert. Ég vissi í raun ekki að ég mætti ekki mæta í merktum klæðnaði. Þá væri ég ekki að mæta svona,“ segir Egill Trausti Ómarsson sem mætti í peysu merktri Sjálfstæðisflokknum á kjörstað í morgun.
Ljósmyndari mbl.is var á staðnum og smellti mynd af honum.
Upphaflega ætlaði Egill að mæta á kjörstað í jakkafötum en datt í jólaskap í morgun og snérist hugur.
Starfsfólk á kjörstað brást skjótt við uppákomunni strax í anddyrinu og meinaði honum aðgang að sjálfum kjörstaðnum, enda óheimilt að mæta fatnaði merktum stjórnmálaflokkum á kjörstað og telst það áróður.
„En ég grínaðist bara með að þeir þyrftu að redda mér úlpu yfir og þeir gerðu það. Ég fór í úlpu yfir og allir sáttir, og fékk kaffi í leiðinni,“ segir Egill, en eftir það gat hann kosið án vandkvæða.
Hann segist hafa lært af reynslunni og að þetta komi ekki fyrir aftur.
„Ég veit það þá bara næst þegar ég ætla að ganga inn í kjörklefann að það verður þá ekki eins augljós merking eins og hægt er. Á kjördag á bara að vera gaman, ég held að það hafi enginn tekið þetta alvarlega,“ segir Egill.
„Þetta var ekki planað, ég ætlaði að mæta í jakkafötum, með nælu samt, en þetta þróaðist bara svona,“ útskýrir hann.
„Ég byrjaði að hlusta á jólalög í morgun þegar ég var að gera kaffið mitt, og þetta er jólapeysa Sjálfstæðisflokksins, eina jólapeysan sem ég á, og mér leið bara leið svo jólalega og var í stemningu.“