Verið er að nýta allan þann mannskap og tæki sem eru til taks í snjómokstri á austurhelmingi landsins og unnið er hörðum höndum að því að halda vegum opnum, þrátt fyrir mikla snjókomu og skafrenning.
Fjarðarheiði var hins vegar lokað um tíuleytið í morgun en það á að taka stöðuna þar um þrjúleytið og athuga með áframhaldandi mokstur. Útlitið er hins vegar ekki gott og menn ekki bjartsýnir á að hægt verði að opna að sögn þjónustufulltrúa hjá Vegagerðinni.
Þá hefur veginum um Vatnsskarð eystra einnig verið lokað
„Við vorum að fá stöðuna um Vatnsskarð eystra, þeir eru að hætta mokstri þar núna. Þeir komust aldrei í gegn, það skóf jafnharðan í.
Annað er opið en það er töluverður skafrenningur sem mun aukast eftir því sem líður á daginn og vindur eykst eftir hádegið, um tvöleytið kannski,“ segir Magnús Ingi Jónsson, þjónustufulltrúi á vöktun og upplýsingum hjá Vegagerðinni.
Hann segir þó ekkert fast í hendi með það hvort loka þurfi á fleiri stöðum, en reynt verði til hins ýtrasta að halda vegum opnum.
„Við munum reyna eins og við getum að halda opnu, en niðri á fjörðunum hefur verið erfitt, á milli Fáskrúðsfjarðar og Breiðdalsvíkur til dæmis. Þar hefur verið sérstaklega erfitt að halda opnu.“
Gular veðurviðvaranir eru í gildi eða taka gildi síðar í dag á Norðurlandi eystra, Norðurlandi vestra, Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum og Suðausturlandi. Þegar líður á daginn dregur úr úrkomu á Norður- og Austurlandi en áfram verður hvasst og gert ráð fyrir skafrenningi.