„Til gamans tók ég saman í gær hversu mörg símtöl ég tók á einum degi. Þau voru 115,“ segir Ármann Jón Garðarsson, verkstjóri hjá Ístaki, sem hefur ásamt Einari Má Gunnarssyni hjá Íslenskum aðalverktökum verkstýrt uppbyggingu varnargarða umhverfis Grindavík og Svartsengi.
Upphaflega stóð til að varnargarðar yrðu sjö kílómetra langir en nú eru kílómetrarnir orðnir tvöfalt fleiri, eða fjórtán. Fordæmalausir efnisflutningar hafa átt sér stað. Fer nærri að þrjár milljónir rúmmetra af efni hafi verið fluttia. Til samanburðar voru fluttar 7,5 milljónir rúmmetra þegar Kárahnjúkavirkjun var byggð en það tók fimm ár. Samanlögð lengd vega sem búnir hafa verið til er um 30 kílómetrar.
„Ég er nú í björgunarsveit og manni líður svolítið eins og maður sé í útkalli. Þetta útkall er bara orðið svolítið lengra en hin,” segir Ármann kíminn. Óhætt er að segja að þetta útkall sé í lengra lagi, enda hófst eldgosahrinan í Grindavík 10. nóvember á síðasta ári. Sjö sinnum hefur gosið við Sundhnúkagíga.
Hann segir að starfsmenn sem staðið hafi vaktina undanfarið ár líti ekki á sig sem neinar hetjur en Ármann vill sérstaklega koma því á framfæri hversu fórnfúsir og duglegir þeir hafi verið.
„Þetta eru bara jaxlar. Menn vakna kannski hálf sex á morgnana og mæta hér í vinnuna og alltaf er mórallinn góður. Það er búið að vera geggjað fólk að vinna hérna. Aldrei neitt vesen á mönnum. Mennirnir sem keyra „búkollurnar“ (vörubíl) fá eitt matarhlé allan daginn,” segir Ármann.
Af mörgum eftirminnilegum atvikum á svæðinu má segja að eitt hafi snúið að jarðverktökunum í janúar á síðasta ári. Virtist þá sem eldgosið væri á beinni leið í átt að vinnuvélunum en menn ákváðu að bjarga þeim.
„Auðvitað virkaði þetta glæfralegt á myndum en það var ekki það mikill hraði á hrauninu. Maður var náttúrlega smá stressaður en við vorum alltaf í beinu sambandi hver við annan og leiðbeindum hver öðrum. Það var engin alvöru hætta á ferðum,” segir Ármann.
Ármann telur að jarðverktakarnir hugsi almennt ekki sérstaklega um það að þeir séu að vinna þjóðþrifaverk.
„Við höfum engan tíma til að spá í það. Við hugsum bara áfram gakk alla daga. Kannski munu menn hugsa meira um þetta seinna. Sumir eru með tengingu við Grindavík og það hefur hjálpað til við að „mótivera“ mannskapinn,“ segir Ármann.
Hann segir að um fimmtíu manns hafi starfað á alls kyns vélum þegar mest lét. Gjarnan er það þegar unnið er á sólarhringsvöktum. Þá eru 25 manns á dagvakt og 25 manns á kvöld- og næturvakt. Þannig hefur verið unnið í 8-9 mánuði af því rúma ári sem liðið hefur síðan eldgosahrina hófst.
Þrír verkstjórar hafa stjórnað vöktum en þeir eru tveir nú, Ármann og Einar Már.
„Við erum að ljúka sólarhringsvöktum um helgina. Það er stefnt að því að gefa frí á kjördag. Enginn hefur tekið einn einasta frídag síðan síðasta gos hófst 20. nóvember,” segir Ármann.
Á ekki að skella sér til Tenerife eða eitthvað slíkt eftir þetta?
„Jú, helst í boði Guðrúnar Hafsteinsdóttur, vinkonu minnar. Við leggjum þann þráð út hér með. Að okkur verði boðið til Tene,” segir Ármann og hlær innilega.