„Vatnsyfirborð Ölfusár við Selfoss hefur haldið áfram að hækka síðan í gærkvöldi vegna klakastíflunnar. Farvegurinn er nú bakkafullur af ís og vatn komið yfir gróður á bakkanum meðfram hótelinu.“
Svo segir í Facebook-færslu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands, en mbl.is ræddi við Einar Sindra Ólafsson, jarðfræðing, Selfyssing og einn þeirra sem eru að baki hópsins, í gærkvöldi.
Í færslunni segir að áin sé þakin klaka við brúnna og neðan við hana.
„Sífellt berst meiri ís að ofan og hefur verið taktur í uppbyggingu klakastíflunnar. Klaki hleðst upp frá brúnni og að Jórukletti, en svo brotnar ísinn upp og skolast niðurr að stíflunni, sem þykknar í kjölfarið.“
Segir að yfirleitt hafi flóð í Ölfusá orðið mest á vorin í tengslum við leysingar og íss.
„Nú er það hinsvegar klakastífla án leysinga sem er orsökin. Um 80 cm er þar til vatnshæðin nær sömu stöðu og 21. desember 2006, en þá flæddi áin og olli smá vandræðum og m.a. flæddi vatn inn í kjallara Selfosskirkju. Þá voru aðstæður allt aðrar og kom flóðið í kjölfar hlýinda og rigninga. Flóðið náði yfir stór svæði meðfram Ölfusá og Hvítá.“