„Þetta gengur nokkuð smurt, það er að rætast úr þessu öllu hjá okkur,“ segir Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi.
„Verstu spár gengu ekki eftir og við kláruðum kjörfundi og nú erum við farin að fá töluvert af atkvæðum í hús.“
Eins og veðurspáin leit út í gær voru taldar einhverjar líkur á því að loka þyrfti kjörstöðum vegna veðurs, en þá hefði þurft að fresta talningu atkvæða á öllu landinu, en allt hafðist það að lokum og lokuðu kjörstaðir á ásettum tíma klukkan 22.
Nú sé bara að bíða eftir að öll kjörgögn berist en aðspurður segir Gestur erfitt að segja til um hvenær öll atkvæði berist í hús. Mikið sé um utankjörfundaratkvæði í ár sem hægi á talningu.
„Þessi ár sem ég hef verið í þessu þá hef ég yfirleitt sagt svona um sex en aldrei verið fyrr en sjö eða átta. Og stundum klukkan tíu.“