Kári Freyr Kristinsson
Alma Möller, oddviti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, segist sátt með niðurstöðurnar í kjördæminu sínu. Flokkurinn bæti við sig 14 prósentustigum og tveimur mönnum en hún vonast eftir að ná þeim fjórða inn.
Þetta segir Alma í samtali við mbl.is á kosningavöku flokksins í Kolaportinu.
Samkvæmt fyrstu tölum mælist Samfylkingin með 22,3% en búið er að telja 42.691 atkvæði. Flokkurinn leiðir bæði í Reykjavíkurkjördæmi suður og Norðausturkjördæmi.
Finnst þér þetta skýrt ákall um breytingar?
„Já, mér finnst það. Samfylkingin er að vinna gríðarlega mikið á og það er margt sem liggur þar að baki. Frábær forysta Kristrúnar og málefnavinna til dæmis þannig ég held að flokkurinn eigi þetta skilið.“
Hefurðu trú á að Samfylkingin verði í næstu ríkisstjórn?
„Ég vona það og mér líst þannig á það en auðvitað er ekki tímabært að segja til um það.“