Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að um sé að ræða sögulegar kosningar og að Viðreisn hafi fest sig í sessi út um allt land. Hún segir Viðreisn vera tilbúna í ríkisstjórn.
„Þetta eru söguleg tíðindi hérna,“ sagði Þorgerður er hún ávarpaði kosningavöku Viðreisnar á Hótel Borg nú fyrir skömmu.
„Fyrir Viðreisn eru þetta okkar langbestu kosningar. Við erum að minnsta kosti að tvöfalda þingmannafjöldann okkar,“ sagði Viðreisn.
Hún sagði flokkinn vera að festa sig í sessi út um allt land og vísaði til þess að flokkurinn væri að fá kjördæmakjörna þingmenn í þeim landsbyggðarkjördæmum þar sem tölur eru byrjaðar að berast.
„Skilaboðin þarna er að fólkið vill breytingar og fólkið vill Viðreisn í ríkisstjórn. Við vorum alveg með áætlun, stefnu og sýn fyrir kosningar. Allir vita fyrir hvað við stöndum, við erum líka með áætlun og skipulag hvernig við förum inn í samhenta og vinnusama ríkisstjórn,“ sagði Þorgerður.
Hún þakkaði fyrir stuðninginn og sagði svo:
„Við þurfum að vinna saman fyrir fólkið okkar út í landinu og Viðreisn er tilbúin,“ sagði hún.