„Við Færeyjar er alldjúp lægð sem dælir kaldri norðanátt til okkar,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Í dag er því spáð víða éljum, en léttskýjað á Suðurlandi. Gul viðvörun er í gildi á Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum og Suðausturlandi fram á hádegi vegna hríðar.
Lægðin fjarlægist landið í dag og veðrið gengur smám saman niður, fyrst vestantil.
Í kvöld og nótt verður hæðarhryggur yfir landinu, vindur því yfirleitt hægur og má búast við björtu veðri og talsverðu frosti um allt land.
Á morgun nálgast ný lægð úr suðvestri. Þá fer að blása úr suðaustri, dregur úr frosti og snjóa suðvestanlands seinnipartinn.
Annað kvöld er útlit fyrir hvassviðri og jafnvel storm með snjókomu eða rigningu á Suður- og Vesturlandi.
Mun hægari vindur um landið norðaustanvert, þurrt veður og áfram talsvert frost.