Grímur varla búinn að jafna sig

Grímur Grímsson á kosningavöku Viðreisnar í nótt.
Grímur Grímsson á kosningavöku Viðreisnar í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn og nýkjörinn þingmaður Viðreisnar, segist aðspurður varla vera búinn að jafna sig eftir kosninganóttina.

„Það var rétt fyrir eitt í dag sem þetta var ljóst að ég hefði náð kjöri. Þetta er enn svo stuttur tími. Ég er nú búinn að átta mig á þessu en ég er enn þá að melta þetta,“ segir Grímur í samtali við mbl.is.

Hringekjan hafði áhrif víðar

Segir Grímur þær fréttir þó hafa verið súrsætar þar sem flokksbróðir hans, Aðalsteinn Leifsson, missti af þingsæti sínu. 

„Þessi hringekja varð þess valdandi að ég fór inn og hann fór út.“

Grímur segir að sér lítist vel á nýtt hlutverk sem þingmaður Viðreisnar. Segist hann aðspurður ekki geta sagt til um neina óskastöðu í stjórnarmyndunarviðræðum.

Stefnir ekki aftur á lögregluna

Áttu eftir að sakna lögreglunnar á meðan þú ert á þingi?

„Já, alveg klárlega. Ég hef notið þess að vera í lögreglunni allan þennan tíma, í 37 ár. Ég mun sakna fólksins og sakna þess að vera í lögreglunni.“

Grímur segist ekki reikna með því að starfa aftur hjá lögreglunni eftir þingsetu sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka