Inga sér á eftir Sönnu

Inga Sæland og Sanna Magdalena Mörtudóttir á kjörstað í gær.
Inga Sæland og Sanna Magdalena Mörtudóttir á kjörstað í gær. Samsett mynd/mbl.is/Karítas

„Ég vil segja, Sanna, að það er búið að vera heiður að fá að vera með þér. Þú ert alveg ótrúlega fylgin þér, falleg og dugleg kona. Ég verð að segja það og boðskapurinn þinn hefur verið einstaklega skýr og fallega framsettur,“ sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, á Sprengisandi í morgun og bætti við að hún hefði viljað sjá Sönnu Magdalenu Mörtudóttur formann Sósíalistaflokksins „með okkur í baráttunni“.

Lokatölur eru komnar úr fjórum kjördæmum. Eins og staðan er núna fékk Sósíalistaflokkurinn 7.054 atkvæði, eða 4,1%, og nær ekki þingmanni inn. 

Kristján Kristjánsson þáttastjórnandi sagði ekki um annað að ræða en að Inga myndi laða Sönnu inn í Flokk fólksins. 

Inga spurði þá Sönnu hvort hún væri að ná að lokka hana.

Sanna þakkaði fyrir hrósið og sagði það hafa verið gaman að kynnast Ingu á síðustu dögum.

„Ég held áfram að vera sósíalisti. Bara takk kærlega fyrir þessi hlýju orð,“ sagði Sanna og óskaði Ingu til hamingju með fylgið. 

Úr átta í sex

Inga nefndi að frá því að hún kom inn á þing árið 2017 hefðu verið átta flokkar á þingi en nú væru þeir sex. 

„Ég er að velta því fyrir mér hvort það verður eitthvað sem við tökum eftir?“ sagði Inga og bætti við að vinstriflokkarnir, Vinstri-græn og Píratar, væru horfnir af þingi. 

Inga sagði Pírata hafa verið með hvað öflugast aðhald stjórnarandstöðunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert