Ís og krapi þrýstist upp á árbakkana

Ísmyndun í Ölfusá. Selfosskirkja sést í bakgrunni.
Ísmyndun í Ölfusá. Selfosskirkja sést í bakgrunni. Ljósmynd/Lögreglan

Vatn er farið að flæða upp að og yfir göngustíga við árbakka Ölfusár á Selfossi. Er fólk sem þar er á ferðinni beðið um að sýna sérstaka varúð, að sögn lögreglunnar á Suðurlandi.

Fylgst er grannt með ís- og krapamyndun í ánni en „ís og krapi er að þrýstast upp að og upp á bakkana fyrir neðan brú“, að því er lögreglan segir á Facebook.

Segir lögreglan að reglulegar eftirlitsferðir séu um svæðið til að fylgst sé með þróuninni.

Nokkur hækkun hafi komið fram á vatnshæðarmæli fyrir ofan Ölfusbrú um klukkan 15 í dag en hafi farið lækkandi síðan.

Fólk í nágrenninu fylgist með

Fólk sem býr í nágrenni ísmyndunar í ánni er beðið um að hafa samband við lögregluna ef það telur að ís eða vatn sé farið að nálgast garða eða húsnæði meira en nú þegar er.

„Einnig eru þeir sem eru með kjallara undir húsum sínum beðnir að fylgjast með ástandi í þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka