Flokkur fólksins hækkaði nokkuð í lokatölum úr Reykjavíkurkjördæmi suður, en þær voru birtar núna fyrir skömmu. Endar flokkurinn með 13,5% í kjördæminu, en hafði áður verið með 12,9%. Samfylkingin lækkar hins vegar og endar með 22,7% en hafði í fyrri tölum verið með 23,2%.
Breytingar í tölum annarra flokka eru minniháttar milli talna og engin breyting er á fjölda þingmanna. Enn getur þó orðið breyting á uppbótarþingmönnum eftir því hvernig niðurstöður í öðrum kjördæmum verða.
Aðeins munar 28 atkvæðum á Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn, en Viðreisn nær samtals þremur þingmönnum í kjördæminu á móti tveimur hjá Sjálfstæðisflokknum. Er þriðji maður Viðreisnar, Aðalsteinn Leifsson, inni sem uppbótarþingmaður miðað við núverandi stöðu, en það gæti breyst eftir úrslitum í öðrum kjördæmum.
Viðreisn lækkar úr 17,9% í 17,7%. Sjálfstæðisflokkurinn fer úr 17,7% í 17,6% og Framsókn lækkar úr 4,6% í 4,4%. Miðflokkurinn bætir við sig örlítið og fer úr 10,4% í 10,5%
Sósíalistaflokkur, Vinstri græn og Lýðræðisflokkurinn eru með óbreytt fylgi, en enginn flokkanna nær manni inn.
Þingmenn kjördæmisins verða samkvæmt þessu eftirfarandi:
Kjördæmakjörnir
· Jóhann Páll Jóhannsson (S)
· Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (C)
· Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (D)
· Inga Sæland (F)
· Ragna Sigurðardóttir (S)
· Snorri Másson (M)
· Jón Gnarr (C)
· Hildur Sverrisdóttir (D)
· Kristján Þórður Snæbjarnarson (S)
Uppbótarþingmenn verða eftirfarandi, en eins og fyrr segir getur sú röðun breyst eftir því hvernig gengur í öðrum kjördæmum.
· Aðalsteinn Leifsson (C)
· Lilja Dögg Alfreðsdóttir (B)