„Getur maður spáð því að verði ekkert rosalega langt í næstu kosningar?“ spyr Egill Helgason fjölmiðlamaður sig í morgunsárið.
Á samfélagsmiðlum sínum veltir hann því upp hvort Flokkur fólksins muni að lokum ráða því hvaða ríkisstjórn taki við völdum. Egill segir flokkinn býsna illa skilgreinanlegan og spyr sig hvort hann sé til hægri eða vinstri.
Hann fjallar um stóran sigur Samfylkingarinnar en segir restina af vinstrinu í rúst, „afhroð vinstrisins er rosalegt,“ skrifar fjölmiðlamaðurinn.
Vekur hann athygli á því að af flokkunum þremur; Pírötum, VG og Sósíalistum komi enginn þeirra manni á þing sem hljóti að kalla á einhverja endurhugsun.
Að Sjálfstæðisflokkur mælist undir 20% segir Egill vera stórtap og alveg nýjan veruleika. Samkvæmt nýjustu tölum er flokkurinn með 18,8% fylgi á landsvísu og 13 menn. Þannig missir Sjálfstæðisflokkurinn 3 menn.
Segir Egill sigur Miðflokksins minni en á horfðist miðað við skoðanakannanir og telur hann flokkinn hafa rekið mjög skrítna kosningabaráttu sem hafi verið á mörkum einhvers konar skops. „Samt er ekkert óhugsandi að flokkurinn verði í stjórn.“
Í því sambandi veltir hann fyrir sér samstarfi Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Flokks fólksins og spyr hver bjóði best í Ingu Sæland.
Þá spyr hann sig hvað Viðreisn vilji, sem geti valið að vinna til hægri eða vinstri, seinni kosturinn sé ekki mögulegur án Flokks fólksins.
„Ný ríkisstjórn verður sennilega skrítin blanda, kannski mynduð af flokkum sem langar ekkert sérlega mikið að vinna saman og varla neitt sérlega stöðug,“ segir fjölmiðlamaðurinn.