„Þetta er ótrúlegur sigur fyrir okkur og um leið líka afgerandi skilaboð frá þjóðinni. Hún er svolítið að rassskella þessa óvinsælustu ríkisstjórn Íslandssögunnar.“
Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, en flokkurinn vann stærsta sigurinn í sögu sinni í afstöðnum alþingiskosningum.
Segir hún flokksmenn enn vera að melta niðurstöðurnar.
„Þetta er stórkostlegur árangur hjá okkur og við erum ótrúlega þakklát fyrir þennan mikla meðbyr sem við fundum og er síðan að skila sér.
Þetta er stærsti sigur í sögu flokksins en fyrst og síðast er þetta ákall um breytingar í íslenskum stjórnmálum,“ segir hún og lýsir atburðarásinni sem svo að þegar einn stjórnarflokkur dettur út af þingi, annar stjórnarflokkurinn rétt heldur sér inni og sá þriðji sé að fá sína verstu útreið í sögu flokksins, sé ákallið nokkuð skýrt.
Viðreisn rúmlega tvöfaldar þingmannafjölda sinn, fer úr 5 mönnum í 11, sem Þorgerður segir hreint út sagt framar björtustu vonum og flokkurinn ætlar sér til áhrifa.
„Til þess erum við í pólitík en við viljum sjá og svara þessu ákalli þjóðarinnar um samhenta samstíga ríkisstjórn og það hlutverk tökum við alvarlega.
Á endanum snýst þetta líka um þau málefni sem liggja hvað mest á þjóðinni en það er að ná niður verðbólgu og vöxtum og ná efnahagslegum stöðugleika í samfélaginu.“
Spurð hvort Viðreisn geti hallað sér til bæði vinstri og hægri eins og margir hafa bent á segir Þorgerður hægt að sjá alls konar mynstur en í ljósi þess að hér sé ákall um samhenta ríkisstjórn finnist henni rétt að þeir flokkar sem eru málefnalega hvað næstir hvor öðrum taki næstu skrefin.
Hverjir standa ykkur næst?
„Ég held að fólk geti bara skoðað þetta og lesið í tölurnar.“ Við erum alla vega búin að læra það á síðustu a.m.k. þremur árum að flokkar, málefnalega ólíkir hver öðrum, geta stoppað mál og þá gerist ekkert. Við eigum að taka þann lærdóm með okkur inn í myndun ríkisstjórnar.“