Samfylkingin er með 28% atkvæða í Reykjavíkurkjördæmi norður miðað við fyrstu tölur og nær fjórum þingmönnum og bætir við sig tveimur þingmönnum frá því í síðustu kosningum. Flokkurinn var síðast með 12,6%.
Auk Kristrúnar Frostadóttur, formanns flokksins og oddvita í kjördæminu nær Samfylkingin inn þeim Degi B. Eggertssyni og Þórði Snæ Júlíussyni, en Þórður hefur þó gefið út að hann muni ekki taka sæti á þingi. Fjórði á lista flokksins er fjölmiðlamaðurinn Sigmundur Ernir Rúnarsson.
Sjálfstæðisflokkurinn er með 18,7% og tvo þingmenn. Var flokkurinn áður með 20,9% en heldur þingmannafjölda sínum.
Viðreisn tvöfaldar næstum því fylgi sitt og er með 15,8% og tvo þingmenn, en var í síðustu kosningum með 7,7% og einn þingmann.
Flokkur fólksins nær einum þingmanni og 10,8% og hækkar sig úr 7,7% í síðustu kosningum. Það nægir þó ekki til að bæta við þingmanni.
Miðflokkurinn mælist með 7,8% og bætir við sig þingmanni, en það er Sigríður Á. Andersen, oddviti flokksins í kjördæminu.
Miðað við þessar fyrstu tölur, þegar talin hafa verið 20.793 atkvæði, eru þetta þingmenn kjördæmisins.
Kjördæmakjörnir
· Kristrún Frostadóttir (S)
· Guðlaugur Þór Þórðarson (D)
· Hanna Katrín Friðriksson (C)
· Dagur Bergþóruson Eggertsson (S)
· Ragnar Þór Ingólfsson (F)
· Þórður Snær Júlíusson (S)
· Diljá Mist Einarsdóttir (D)
· Pawel Bartoszek (C)
· Sigríður Á. Andersen (M)
Uppbótar
· Dagbjört Hákonardóttir (S)
· Sigmundur Ernir Rúnarsson (S)
Landsyfirlitið sem birtist nú byggir að hluta á niðurstöðum úr skoðanakönnunum, þar til komnar eru atkvæðatölur úr öllum kjördæmum. Eftir að fyrstu tölur eru komnar úr öllum kjördæmum byggir landsyfirlitið einungis á þeim tölum sem gefnar hafa verið upp af yfirkjörstjórnum.