Sanna farin að hugsa um næstu skref

Sanna Magdalena Mörtudóttir í leiðtogakappræðum Morgunblaðsins og mbl.is í aðdraganda …
Sanna Magdalena Mörtudóttir í leiðtogakappræðum Morgunblaðsins og mbl.is í aðdraganda kosninganna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sanna Magdalena Mörtudóttir, leiðtogi Sósíalistaflokks Íslands, segist auðvitað hafa viljað komast inn á þing.

Flokkur hennar hlaut 4,0% atkvæða í alþingiskosningum gærdagsins og fékk engan þingmann kjörinn.

Í samtali við mbl.is segist hún strax vera farin að hugsa um næstu sveitarstjórnarkosningarnar og hvernig sé hægt að halda áfram með þær áherslur sem flokkurinn kynnti í kosningabaráttunni.

Ná kannski smá svefni

Sanna segir flokkinn hafa haft skamman tíma til stefnu og að hún sé þakklát fyrir félaga sína.

„Þetta er bara svo öflugur hópur sem ég er gríðarlega stolt af og þakklát fyrir að hafa kynnst betur í þessari snörpu kosningabaráttu.

Eins og ég sé stöðuna þá bara höldum við áfram þar sem það er hægt en þetta er bara nýskeð og ég á eftir að heyra í mínum félögum og ná kannski smá svefni í millitíðinni,“ segir hún létt.

Fyrsta skrefið, segir leiðtoginn, verður að fara yfir niðurstöðuna, hitta félagana og ræða stöðuna en hún líti svo á að það þurfi að halda áfram.

„Hvernig hægt sé að byggja upp sósíalíska baráttu þar sem rödd fólksins og nærsamfélagsins er skýr. Það er alla vega mitt. Ég hugsa alla vega strax hvað er best að gera næst en auðvitað þarf ég að heyra í mínum félögum og taka góða umræðu um stöðuna.“

Langhlaup að vinna gegn auðvaldsskipulaginu

Segir Sanna að þótt kannanir segi ekki allt þá hafi mælst fylgi með áherslum og tillögum flokksins eins og þær voru lagðar fram.

Hún trúi að það sé langhlaup að vinna gegn auðvaldsskipulaginu og líti svo á að það sé hópur þarna úti sem taki undir breytingartillögurnar sem muni leiða til réttláts skattkerfis til að byggja upp gott velferðarsamfélag.

Sósíalistaflokkurinn á fulltrúa í borgarstjórn og hefur flokkurinn áður boðið fram í Reykjavík og í Kópavogi árið 2018 en ekki náð inn manni í bæjarstjórnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert