Eiríkur Björn Björgvinsson skipar þriðja sæti á lista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi og næði inn á þing sem jöfnunarþingmaður miðað við fyrstu tölur. Óvissan er því mikil en hann telur þó Viðreisn eiga mikið inni í Kraganum og bindur vonir við það að verða kjördæmakjörinn.
Þetta segir hann í samtali við mbl.is á kosningavöku Viðreisnar á Hótel Borg.
Hvernig er tilfinningin að vera jöfnunarþingmaður að svo stöddu?
„Hún er svolítið sérstök að sjálfsögðu. Maður þekkir það að jöfnunarþingmenn eru svolítið inn og úti þannig þetta verður svolítið löng nótt,“ segir Eiríkur.
Samkvæmt fyrstu tölum úr Suðvesturkjördæmi þá er flokkurinn með 14,3% fylgi og fengi tvo kjördæmakjörna þingmenn. Eiríkur bendir þó á að í síðustu kosningum hafi Viðreisn bætt við sig fylgi í kjördæminu eftir því sem leið á talninguna.
„Miðað við tölurnar sem voru að koma þá trúi ég ekki öðru en að maður eigi möguleika á því að verða kjördæmakjörinn,“ segir hann.