Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, kveðst ánægður með fyrstu tölur úr Suðvesturkjördæmi en telur að flokkurinn eigi nóg inni.
Þetta segir hann í samtali við mbl.is á kosningavöku Viðreisnar á Hótel Borg.
Samkvæmt fyrstu tölum úr Kraganum þá er flokkurinn með 14,3% fylgi og tvo kjördæmakjörna menn.
„Við höfum aldrei verið með tvo kjördæmakjörna áður og ég ætla leyfa mér að vona að það að þessar tölur eigi eftir að hækka, vegna þess að í síðustu kosningum þá byrjuðum við í sjö prósentum og enduðum í tólf. Þannig það hefur ekki verið mikil blöndun í kjördæminu þá. Ég er alveg sannfærður um það að við fáum að minnsta kosti þrjá menn í Suðvestur,“ segir Sigmar.
Hann segir að hann sé ánægður með tölurnar sem hafa komið út land allt, þar sem þær benda til þess að Viðreisn sé að tvöfalda þingflokkinn. „Þannig við erum auðvitað í skýjunum,“ segir hann.
Framsókn tapar miklu fylgi á milli kosninga miðað við fyrstu tölur og þá bendir margt til þess að Vinstri græn séu að falla af þingi. Sigmar segir aðspurður að þetta megi túlka sem ákall um breytingar.
„Það er auðvitað þannig að við eigum eftir að fá svo mikið af tölum úr öðrum kjördæmum, þannig þetta er enn þá svolítið galopið. En já auðvitað er þetta ákall um breytingar. Alveg augljóst,“ segir Sigmar.