„Þetta er stórkostlegt, algjörlega stórkostlegt. Maður er varla búinn að átta sig á þessu öllu saman,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sem bætir við sig fjórum mönnum á þing samkvæmt nýjustu tölum.
„Vilji þjóðarinnar er breytingar. Maður er ekki enn búinn að átta sig á því hvað það er rosalegt ákall eftir breytingum.
Við sjáum það náttúrlega bara á þessum stórsigri Samfylkingarinnar sem er ekki að koma okkur á óvart. Svo Viðreisn líka og svo við. Þetta er er bara ákall eftir breytingum.“
Þú nefnir þessa tvo flokka. Getur þetta orðið eitthvert samstarfsmunstur í ríkisstjórn?
„Það veit ég ekkert um. Ég er ekki farin að tala við einn eða neinn. Ég sé bara að vilji þjóðarinnar er breytingar.“
Talning hefur oft verið komin lengra á veg á þessum tíma sunnudags eftir kosningar og bendir Inga á að mikil hreyfing sé á uppbótarþingmönnunum.
„Þau eru bara út og inn greyin alltaf. Mér sýnist nú Lilja vera alveg komin inn og mér sýnist Eyjólfur vera með sína tvo alveg í Norðvesturkjördæmi.
Núna er Katrín Sif inni í norðaustri og Marta inni en Kolla komin út aftur einhvern veginn, þetta er allt að koma og fara.“
Heilt yfir segist formaðurinn skýjum ofar. „Þetta er bara framar öllu eins og þú veist. Þetta er kannski í fyrsta skiptið sem Gallup er eitthvað nálægt okkur og ég er nú þakklát fyrir það en við höfum alltaf verið eitthvað vanmetin eins og gengur.“
Inga er auðmjúk og ofboðslega þakklát og segir að hvernig sem allt þróast og hvar sem flokkurinn lendi muni hann halda áfram að berjast fyrir sínum málum – fyrir fólkið. „Það er bara þannig. Alltaf hjá okkur er fólkið fyrst og svo allt hitt.“
Segist hún aðspurð ekki hafa farið að sofa fyrr en um fimmleytið í morgun.
„Ég ætlaði að vera dugleg að fara að sofa strax eftir Rúv en þá sat bóndinn hérna og starði á skjáinn. Þá tók ég óvart beygjuna þangað í stað þess að fara inn á koddann.
Þetta er nú ekki alltaf að gerast og þetta eru einstakir viðburðir og þessi er alveg stórkostlegur,“ segir Inga Sæland.