Snorri Másson, nýkjörinn þingmaður Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, segir tímann frá því að ígrunduð skyndiákvörðun um að bjóða sig fram á þing hafi verið tekin hafa verið stórbrotið og hálfklikkað ævintýri.
„Nú þegar þetta er í höfn er mér efst í huga djúpt þakklæti til fjölskyldu minnar, Kára Stefánssonar og allra annarra sem hafa, viljandi eða óviljandi, lagt mér lið í þessari miklu baráttu,“ segir Snorri á Facebook.
Í aðdraganda kosninganna skrifaði Kári opið bréf til Snorra þar sem hann hnýtti í Snorra fyrir að gera athugasemdir við umfjöllun Ríkisútvarpsins um Miðflokkinn.
Snorri segist í dag ósegjanlega þakklátur fyrir stuðninginn sem rataði í kjörklefann.
„En þessi barátta er rétt að hefjast. Ný hreyfing er orðin til í íslenskum stjórnmálum og við höfum mikið verk að vinna. Þetta er alveg svakalega, svakalega spennandi,“ segir Snorri.