Tími karla sem grípa fram í fyrir konum liðinn

Jón Gnarr og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fagna í nótt.
Jón Gnarr og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fagna í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Gnarr segir skemmtilegt að vera kominn inn á þing en að því fylgi líka mikil ábyrgð. Mörg brýn verkefni liggi fyrir sem þurfi að ganga í að reyna að laga. Kveðst hann hlakka til þess að taka sæti á Alþingi Íslendinga.

„Ég hlakka til að geta tekið til hendinni og farið af krafti í þetta.“

Jón náði kjöri í alþingiskosningunum í gær sem 7. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður en hann skipaði 2. sæti á lista Viðreisnar í kjördæminu.

„Það er mikil nýliðun. Konum fækkar í heildina en það er kvenlægari forystusveit. Mér finnst það svolítið merkilegt.“

Formaður Viðreisnar og oddvitar flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum, Suðvesturkjördæmi og Norðvesturkjördæmi eru allt konur. „Við karlarnir löbbum svona í humátt á eftir og erum svona „bestu vinir aðal“ og mér finnst það svolítið flott.“

Jón segir tíma karla sem grípa fram í fyrir konum svolítið liðinn.

„Þessir karlar, sem halda að þeir séu svo æðislegir, þeir kinka svona hratt kolli á meðan konan talar af því þá hlakkar svo ofboðslega til að segja það sem þeim finnst.

Svo stundum geta þeir ekki haldið aftur af sér og af því að þeir eru með kraftmeiri rödd en konur þá grípa þeir svona fram í og taka orðið af konunum þannig að þær sitja svona oft eftir sko. Við viljum ekki þessa karla en þeir sjálfir eru ekki að átta sig á því.“

Jóga og Jón Gnarr ásamt Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, oddvita Viðreisnar …
Jóga og Jón Gnarr ásamt Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, oddvita Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, og dætrum hennar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sjá stöðuna og fólkið með eigin augum

Þegar Jón var borgarstjóri þótti honum oft þingmenn Reykjavíkur svo ósýnilegir á meðan þingmenn úti á landi hafi oft verið sýnilegir og áberandi í sínu kjördæmi.

„Ég ætla að reyna að leggja mig fram um að vera svolítið sýnilegur í kjördæminu mínu og sjá með eigin augum stöðuna og framan í fólkið.“

Segir Jón aðalástæðu sína fyrir að hafa farið út í landsmálin vera málefni barna og ungmenna og sérstaklega þeirra barna og ungmenna sem höllum fæti standa í samfélaginu og hafa lent utangarðs einhverra hluta vegna.

„Í þessum málaflokki ríkir neyðarástand eins og umboðsmaður barna hefur bent á, það er bara þannig,“ segir hann. Börn á Íslandi séu að finna í algjörlega óásættanlegum aðstæðum og það sé hans brýnasta verkefni.

„Ég tel að það sé ástæðan fyrir því að ég fæ þessa kosningu og ætla að ganga í það af fullum krafti.“

Það er alveg sama hversu góð hugmyndin er, því ef hún verður ekki að veruleika ef ekki er hægt að fjármagna hana. „Það þekki ég úr starfi mínu sem sjálfstætt starfandi sjónvarps- og kvikmyndagerðarmaður,“ segir hann í léttum tón.

Fær mjólk í hjartað

Það þarf að fjármagna og þess vegna segir hann forgangsmál hjá Viðreisn að koma böndum á rekstur ríkissjóðs. Talar hann um hagræðingu í rekstri ríkissjóðs og lóðasölu í því sambandi. Ná þurfi verðbólgunni niður og þar af leiðandi vöxtunum og koma á pólitískum og efnahagslegum stöðugleika á hér á landi.

„Það er svona stóra markmið flokksins og það myndi vera megináhersla okkar í einhverju hugsanlegu samstarfi við aðra flokka.“

Til hvaða flokka lítið þið um samstarf?

„Ég er nú ekki einu sinni farinn að hitta hina þingmennina í flokknum, við erum bara að fara að hittast seinna í dag. Fólk hefur náttúrulega alls konar mismunandi skoðanir og mismunandi áherslur. Sumir vilja svona og aðrir ekki. Þetta er bara eitthvað sem þarf að ræða,“ segir Jón sem vill nota tækifærið og sýna þakklæti sitt.

Hann vill koma á framfæri þakklæti til fólksins sem hann hefur hitt í þessu verkefni og þakka fyrir þann stuðning sem hann hefur fengið.

„Þetta er mikill heiður fyrir mig og ég fæ bara svona mjólk í hjartað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka