Ættingjar norska sjóliðans Sigurds Arvids Nilsens eru afar þakklátir fyrir að hafa nú fengið staðfestingu á því hver örlög hans urðu en norsk stjórnvöld hafa með formlegum hætti lýst því yfir að sjómaður, sem hvílir í kirkjugarðinum á Flateyri og hefur til þessa verið óþekktur, sé Sigurd. Lík hans fannst í sjónum í apríl 1942 og á gröf hans er nú trékross með yfirskriftinni Leiði óþekkta sjómannsins en til stendur að leggja þar norskan opinberan legstein með nafni Sigurds.
„Það er afar gott að fá nú fréttir af því að hann hafi verið greftraður á Íslandi,“ segir Odd-Arne Berg-Hanssen en Sigurd var móðurbróðir hans. „Við vorum mjög undrandi en jafnframt glöð að fá loks svar við þeim spurningum sem hafa lengi leitað á fjölskylduna,“ segir hann. Einu upplýsingarnar sem fjölskyldan hafi fengið um afdrif Sigurds voru að hann hefði farist þegar flutningaskipinu DS Fanefjeld var grandað með tundurskeyti frá þýskum kafbáti við Ísland.
„Við höfum oft talað um þetta. Móðir mín reyndi að afla nánari upplýsinga á sínum tíma en án árangurs en nú höfum við fengið þær,“ segir hann.
Móðir Odd-Arnes hét Ingrid, fædd 1921, en hún er látin. Þau Sigurd, sem var fæddur 1918 og því 23 ára þegar hann fórst, voru einu börn foreldra sinna sem hétu Eldfrida og Simon. Odd-Arne, sem er 72 ára, á tvo bræður. Harald, 75 ára, og Sigurd, 62 ára, sem heitir eftir frænda sínum. Odd-Arne segir að faðir sinn, sem var sjómaður, hafi einnig verið í norska hernum á tíma síðari heimsstyrjaldarinnar eins og Sigurd.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær, laugardag.