Rétt tæplega 300 kjósendur í Reykjavíkurkjördæmi norður strikuðu yfir nafn Þórðar Snæs Júlíussonar, frambjóðanda Samfylkingarinnar, eða færðu nafn hans á lista flokksins, í kosningunum sem haldnar voru á laugardag.
Þetta upplýsir Heimir Örn Herbertsson, formaður yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis norður, í samtali við mbl.is
Þórður Snær skipaði þriðja sæti Samfylkingarinnar í kjördæminu en hafði gefið það út fyrir kosningar að hann tæki ekki sæti á þingi hlyti hann kjör vegna niðrandi skrifa hans um konur á bloggsíðu á árunum 2004-2007.
Greint var frá fyrr í dag að um fimmtán prósent þeirra sem greiddu Samfylkingunni atkvæði í Reykjavíkurkjördæmi norður á laugardag strikuðu yfir nafn Dags B. Eggertssonar eða færðu hann neðar á listann, og féll hann úr öðru sæti í það þriðja fyrir vikið.
Samfylkingin hlaut 9.653 atkvæði í kjördæminu í alþingiskosningunum, eða um 26% atkvæða, og var með mesta fylgið.
Náði flokkurinn fjórum sætum á þing í kjördæminu.