Lögreglunni á Hverfisgötu var tilkynnt um einstakling að brjóta rúður í bifreiðum og talið var að hann væri vopnaður barefli.
Lögreglan fann hann skömmu síðar og var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu sökum ástands og í þágu rannsóknar.
Lögreglan í sama umdæmi var kölluð til þar sem einstaklingur hafði ráðist að öðrum og kastað í hann glasi. Sá sem varð fyrir árásinni var ekki alvarlega slasaður en lögregla þekkir til árásarmannsins og leitar hans nú, að því er segir í dagbók lögreglunnar vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til kl. 5 í morgun.
Alls eru 54 mál bókuð í kerfum lögreglunnar á tímabilinu og gista þrír í fangageymslu.
Lögreglan í Kópavogi og Breiðholti var kölluð til vegna einstaklings sem var inni á skemmtistað en var þar óvelkominn. Lögreglan vísaði honum út.
Tveir ökumenn voru stöðvaðir á höfuðborgarsvæðinu grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis.
Þá hafði lögreglan í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi afskipti af einstaklingi sem er grunaður um vörslu fíkniefna.