Héraðsdómur Vesturlands hefur dæmt karlmann í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir meiri háttar skattalagabrot. Maðurinn er enn fremur dæmdur til að greiða 30 milljón kr. sekt til ríkissjóðs.
Maðurinn, Óskar Óskarsson, var ákærður í nóvember í fyrra fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum framin í rekstri einkahlutafélagsins Ó.Ó. verktökum, sem er nú afskráð. Hafði hann, sem framkvæmdastjóri og stjórnarformaður félagsins, eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna greiðslutímabilanna desember rekstrarárið 2017, janúar til og með desember rekstrarárið 2018 og janúar til og með júní rekstrarárið 2019, samtals að fjárhæð 15.433.810 krónur.
Óskar neitaði sök við fyrirtöku málsins í apríl á þessu ári. Aðalmeðferðin fór fram í nóvember.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 29. nóvember, að með bréfi skattrannsóknarstjóra til héraðssaksóknara 15. september 2023 hafi málinu verið vísað til rannsóknar á meintum brotum á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og eftir atvikum almennum hegningarlögum.
Þar kom fram að rannsókn skattrannsóknarstjóra hafi beinst að skattskilum Ó.Ó. Verktaka ehf. og að fyrirsvarsmaður félagsins, ákærði Óskar Óskarsson, hefði áður komið til kasta skattyfirvalda, í máli sem lauk endanlega með dómi Landsréttar frá 13. september 2019. Í því máli var honum gerð fangelsisrefsing í fjóra mánuði skilorðsbundið og dæmdur til greiðslu sektar að fjárhæð 14.250.000 kr.
Héraðsdómur segir að dómurinn telji engin efni til að fallast á varnir Óskars þannig að leiða eigi til sýknu.
„Óumdeilt er að ákærði var skráður sem eini forsvarsmaður félagsins og hann hefur játað það greiðlega að enginn annar hafi tekið ákvarðanir um hvað hafi verið greitt af skuldum félagsins og eðli máls samkvæmt þá einnig hvað hafi ekki verið greitt. Þótt gögn málsins sýni viðleitni ákærða til að semja um greiðslur á þeim gjöldum sem hér er ákært vegna er ekkert sem bendir til þess að hann hafi greitt inn á þær svo nokkru nemi eða staðið við þær áætlanir sem hann gerði með innheimtumanni ríkissjóðs,“ segir í dómnum.
Þá kemur fram, að ákæran byggi á hefðbundnum gögnum í málum sem þessum þar sem skilagreinar frá skattaðilanum sjálfum liggi í grunninn til grundvallar málsókn.
„Þessum gögnum hefur í engu verið hnekkt og ekkert sem dregur úr trúverðugleika þeirra. Ákærði hefur engar rökstuddar skýringar gefið á þeirri málsástæðu sinni að þessar kröfur séu greiddar og engin gögn málsins benda heldur til þess,“ segir í niðurstöðukafla dómsins.
Héraðsdómur segir ljóst að Óskar hafi í raun í engu skeytt um skyldur sínar sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins og hann hafi ekki fært fram haldbær rök fyrir hinu gagnstæða.
„Með þessu sýndi hann a.m.k. af sér stórkostlegt gáleysi og hirðuleysi við stjórn félagsins sem varðar hann refsiábyrgð. Brotin voru fullframin á lögboðnum eindaga skilaskyldu, sbr. ítrekuð dómafordæmi, og greiðslur eftir eindaga, sem þó voru afar takmarkaðar, breyta í engu refsiábyrgð ákærða að þessu leyti. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir þau brot sem honum eru gefin að sök samkvæmt ákæru,“ segir í dómi héraðsdóms.