Dagur fellur niður um sæti vegna útstrikana

Dagur á góðri stundu á kosningavöku Samfylkingarinnar á laugardagskvöld.
Dagur á góðri stundu á kosningavöku Samfylkingarinnar á laugardagskvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um fimmtán prósent þeirra sem greiddu Samfylkingunni atkvæði í Reykjavíkurkjördæmi norður í alþingiskosningunum á laugardag annað hvort strikuðu yfir Dag B. Eggertsson, sem frambjóðanda, eða færðu hann neðar á listann. Fellur hann úr öðru sæti í það þriðja fyrir vikið.

Þetta staðfestir Heimir Örn Herbertsson, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, í samtali við mbl.is.

„Það lítur þannig út samkvæmt þeim upplýsingum sem við í yfirkjörstjórn í Reykjavík norður höfum tekið saman. Yfirferð okkar yfir breytta seðla virðist sýna að það verður þessi breyting á sætaröðun frambjóðenda Samfylkingarinnar í kjördæminu,“ segir Heimir.

Um 1.200 atkvæði þurfti til

Alls voru það 1.453 kjósendur sem gerðu breytingar á listanum með þessum hætti og skipta þeir Dagur og Þórður Snær Júlíusson því um sæti og sá síðarnefndi færist upp í annað sætið. Um 1.200 atkvæði þurfti til að Dagur færðist niður um sæti. 

Listinn helst óbreyttur að öðru leyti, en Þórður hefur hins vegar gefið út að hann ætli sér ekki að taka sæti á Alþingi eftir að hafa gengist við niðrandi skrifum um konur á bloggsíðu sinni á árunum 2004 til 2007. 

Verði ekki aðrar breytingar gerir þetta það að verkum að Sigmundur Ernir Rúnarsson verður fjórði þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík norður, en hann var í fimmta sæti listans á eftir Dagbjörtu Hákonardóttur. Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, er oddviti listans í kjördæminu.

„Þetta er bara niðurstaðan af þeirri vinnu sem við höfum unnið, sem felst í því að yfirfara útstikanir og eða breytingar á röðun sem kjósendur hafa sumir hverjir vilja gera. Við þurfum að yfirfæra þær og taka saman upplýsingar um þá vinnu, sem við höfum gert. Við höfum sent þá skýrslu til landskjörstjórnar, hún er að safna þessum skýrslum saman úr öllum kjördæmum,“ segir Heimir.

Landskjörstjórn mun svo hittast síðar í vikunni til að gefa út lokaniðurstöður, að sögn Heimis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka