Lögreglan á Suðurnesjum varar við fljúgandi hálku á Reykjanesbrautinni og á síðustu klukkustund hafa orðið fjögur umferðarslys á brautinni.
Sandra Benediktsdóttir, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir í samtali við mbl.is að fjögur umferðaróhöpp á mismunandi stöðum hafi orðið á Strandarheiði vegna hálkunnar og einhverjir bílar séu óökufærir.
Að hennar sögn hefur enginn verið fluttur með sjúkrabifreið og að um minniháttar meiðsli hafi verið að ræða hjá þeim sem lentu í umferðaróhöppunum.
Hún segir að vinna sé í gangi við að draga óökufæru bílana af vettvangi en umferðin gangi að öðru leyti þokkalega. Hún segir að bílar frá Vegagerðinni séu að salta Reykjanesbraut og brýnir fyrir ökumönnum að fara varlega.