Ökumaður framvísaði erlendu ökuskírteini sem lögregla hefur grun um að hafi verið falsað. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði ökumanninn við almennt umferðareftirlit.
Skírteinið var í kjölfarið haldlagt og ökumaður skráður hjá lögreglu vegna aksturs án réttinda og vegna gruns um skjalafals.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglu í dag.
Alls segir dagbók lögreglu frá fjórum brotum í tengslum við innbrot og þjófnað í Reykjavík. Tilkynnt var um þjófnað í verslun í hverfum 101, 103 og 108 og innbrot í hverfi 104.
Þá var maður til vandræða á bar miðsvæðis og var í kjölfarið vísað á brott.
Tilkynnt var um mann sofandi í sameign í Vesturbæ og honum ekið í húsaskjól.
Aðili í annarlegu ástandi í sameign í Breiðholti var tilkynntur til lögreglu og honum vísað á brott.
Einnr var vistaður í fangaklefa lögreglu eftir að tilkynnt var um líkamsárás í Grafarholti.
Þá var tilkynnt um mann ofurölvi í leigubifreið í Breiðholti. Hafði sá ölvaði þegar greitt fyrir ferðina en leigubílstjórinn óskaði eftir aðstoð lögreglu við að fjarlægja viðkomandi úr bifreiðinni. Var honum ekið til síns heima.