„Gæti orðið erfitt með samgöngur seinni partinn“

Það byrjar að snjóa á höfuðborgarsvæðinu upp úr hádegi og …
Það byrjar að snjóa á höfuðborgarsvæðinu upp úr hádegi og seinni partinn verður þar skafrenningur og blint. mbl.is/Arnþór

„Það er spáð leiðinda vetrarveðri og það er mikið af gulum viðvörunum á suður- og vesturhluta landsins.“

Þetta segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is en gular viðvaranir taka gildi víða um land í dag og í kvöld, meðal annars á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Vestfjörðum og Breiðafirði. 

Þorsteinn segir að það byrji að snjóa á höfuðborgarsvæðinu upp úr hádegi og það bæti í vind og úrkomu eftir klukkan 17. Hann brýnir fyrir fólki að fara varlega og gefa sér lengri tíma en eðlilega í umferðinni seinni partinn.

Skafrenningur og blint

„Það gæti orðið eitthvað erfitt með samgöngur seinni partinn í dag og fólk á höfuðborgarsvæðinu verður að sýna þolinmæði í umferðinni með kvöldinu. Hún mun örugglega ganga hægara fyrir sig en venjulega,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn segir viðbúið að það verði skafrenningur og blint og þar með versnandi færð en seint í kvöld þá muni lægja og úrkoman breytast í slyddu eða rigningu. Hann segir að upp úr miðnætti ætti veðrið að vera gengið yfir að mestu leyti á höfuðborgarsvæðinu og á morgun verði skúrir eða slydduél.

Gul viðvörum fyrir höfuðborgarsvæðið tekur gildi klukkan 18. Á Suðurlandi og á Faxaflóa taka viðvaranir gildi klukkan 14, á Breiðafirði klukkan 19 og á Vestfjörðum og Suðausturlandi klukkan 20.

Á vef Vegagerðarinnar, umferðin.is er vakin athygli á því að Hellisheiði, Þrengsli, Mosfellsheiði, Lyngdalsheiði og Krýsuvíkurvegur hafa verið settir á óvissustig vegna veðurs frá klukkan 15 í dag til 23 í kvöld og vegum getur verið lokað með stuttum fyrirvara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka