Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, hafa rætt saman eftir að úrslit lágu fyrir í alþingiskosningum í gær.
Þorgerður staðfesti þetta við blaðamenn þegar hún kom til fundar við forseta Íslands á Bessastöðum klukkan 11.
„Við Kristrún höfum aðeins talað saman já, á milli pallborða og setta hjá ykkur.“
Talað hefur verið um að Samfylking og Viðreisn séu þeir flokkar sem líklegastir eru til að koma að myndun nýrrar ríkisstjórnar, ásamt þriðja flokki, þá hugsanlega Flokki fólksins.
Kristrún átti fund með forseta klukkan 9 í morgun en þegar hún ræddi við blaðamenn eftir fundinn vildi hún lítið gefa upp hvaða formenn hún hefði rætt við. Hún sagði þó eðlilegt á þessum tímapunkti að einhverjir formenn væru að ræða saman.
„Mér finnst það mjög eðlilegt á þessum tímapunkti, en ég ætla bara að leyfa ferlinu að eiga sér stað með eðlilegum hætti,“ sagði hún og vísaði þar til þess að Halla ætti í dag eftir að ræða við alla formenn þeirra flokka sem komust á þing.