Lögreglan á Suðurlandi hefur í dag fylgst vel með ís og krapamyndun í Ölfusá en í gær varaði Veðurstofa Íslands við ísstíflum í ánni.
Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi í gærkvöld kom fram að ís og krapi væru að þrýstast upp og að og upp á bakkana fyrir neðan brú en að sögn Garðars Más Garðarssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á Suðurlandi, hefur ástandið lagast frá því í gær.
„Þetta lítur bara ágætlega út sýnist mér. Við erum búnir að fara á bakkana í morgun og flugum með dróna yfir svæðið fyrir hádegið og það er eins og mælingar sýna þá hefur vatnshæðin lækkað og vel yfir einn metra síðan í gær,“ segir Garðar við mbl.is.
Hann segir að rásin undir brúna meðfram kirkjunni sé nú vel opin og að lítið af krapa sem sé að bætast við.
„Það er nokkuð mikið magn af ís og krapa fyrir neðan bæinn og það sést ekkert í ána á stórum svæðum en hún rennur undir og það hefur ekkert flætt úr henni að ráði upp á bakkana,“ segir Garðar.
Hann segir að um helgina, þegar íshrannir voru að byggjast upp, þá hafi það verið mikið sjónarspil og hálf ógnvekjandi.
„Á föstudaginn sást ekkert í ána undir brúnni. Það var opið í beygjunni hjá kirkjunni og þegar ég var á staðnum þá skreið allt saman fram og það var eins og það væri verið að draga dúk yfir allt saman. Þetta var mikið sjónarspil.“