Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, mælti með því við forseta Íslands á fundi þeirra í morgun að Kristrún Frostadóttir fengi stjórnarmyndunarumboð.
„Mín skilaboð til forseta voru að Kristrún ætti að fá stjórnarmyndunarumboðið,“ sagði Þorgerður Katrín að loknum fundinum.
Spurð hvort hún og Kristrún ætli að vera í bandalagi um að mynda saman ríkisstjórn svaraði hún:
„Samband okkar Kristrúnar er mjög gott, já. Við ætlum að reyna vonandi að mynda sterka og samhenta ríkisstjórn.“
Þorgerður Katrín sagði hlutina eiga eftir að koma betur í ljós og nefndi að þær tvær hefðu ekki rætt um nein stefnumál.
Spurð hvort samtölin við Kristrún hefðu verið þess eðlis að hún væri bjartsýn, svaraði hún: „Já. Ég sé þarna ákveðið mynstur af ríkisstjórnum sem hægt er að mynda.“
Hún sagði forsetann eiga eftir að ræða við fleiri formenn og síðan þyrfti að láta daginn líða.