Margir harðir árekstrar í hálkunni

Það er brjálað að gera hjá árekstur.is enda flughálka á …
Það er brjálað að gera hjá árekstur.is enda flughálka á götum höfuðborgarsvæðins. Ljósmynd/Kristján Kristjáns­son

Kristján Kristjánsson, framkvæmdastjóri hjá Árekstur.is, segir mikið vera að gera hjá sínum mönnum en glerhálka er á mörgum götum höfuðborgarsvæðisins sem og á Reykjanesbrautinni og hafa orðið fjölmörg umferðaróhöpp eftir hádegi.

„Það er búið að vera gríðarlegt álag síðustu tvo klukkutímana. Þetta byrjaði klukkan 13 og það hafa orðið margir árekstrar ekki síst á Reykjanesbrautinni sunnan Straumsvíkur og að Strandarheiði,“ segir Kristján við mbl.is.

Hann segir að á síðustu tveimur tímum hafi þeim borist um 20 tilkynningar og í mörgum tilvikum hafi orðið mjög harðir árekstrar.

Ástandið ekkert að skána

„Það er mikið um óökufæra bíla eftir óhöpp og í sumum tilfellum eru bílar ónýtir,“ segir Kristján en tveir bílar eru gjörónýtir eftir umferðarslys á Strandarheiði en þar urðu á skömmum tíma fjögur umferðaróhöpp.

„Það er gríðarleg hálka í efri byggðum borgarinnar og ástandið virðist ekkert vera að skána. Ég vil brýna fyrir fólki að aka rólega. Hálkan er mjög lúmsk og fólk er engan veginn að átta sig á aðstæðum,“ segir Kristján.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka