Fádæma mjótt var á munum við úthlutun jöfnunarsæta í nýafstöðnum kosningum. Í einu tilfelli munaði aðeins tveimur atkvæðum að kapall jöfnunarsæta breyttist.
Í einfölduðu máli þá ráða landstölur flokka því í hvaða röð flokkar fá úthlutað jöfnunarsætum og hlutfallstölur þingmanna sem hefðu verið næstir inn því hvaða þingmenn hljóta slíkt sæti. Nánar má lesa um skiptingu jöfnunarsæta hér.
Um úhlutun jöfnunarsæta segir í kosningalögum að ef tvær eða fleiri lands- eða hlutfallstölur reynast jafnháar skuli varpa hlutkesti til þess að ákveða röðun.
Innan Sjálfstæðisflokksins var hlutfallstala tveggja þingmanna jöfn að tveimur aukastöfum virtum en á milli bar í þriðja aukastaf. Vangaveltur spruttu upp hvort það væri tilefni til þess að varpa hlutkesti, en Jóhann Óli Eiðsson fyrrverandi blaðamaður hóf máls á stöðunni á X.
Áður hefur reynt á aukastafi, það er þegar Lýðræðisvaktin stefndi íslenska ríkinu, þar sem Lýðræðisvaktin vildi fjárframlag frá ríkinu sem miðaðst við 2,5% atkvæða í Alþingiskosningum. Lýðræðisvaktin hlaut 2,46% atkvæða, námundað að tveimur aukastöfum.
Vildi lýðræðisvaktin m.a. meina að rétt væri að miða við einn aukastaf, enda væri ekki vísað til 2,50% atkvæða í lögum.
Að mati dómsins verður námundun ekki lögð á vogarskálina í stað greiddra og gildra atkvæða. Í niðurstöðu segir m.a. þetta:
„Þegar þingsætum er úthlutað, þar með talið jöfnunarþingsætum, er stuðst við d´Hondt-regluna, sem er reikniregla íslenskra kosningalaga við úthlutun þingsæta. Þegar reiknað er hvort stjórnmálasamtök nái manni inn á þing er einungis gengið út frá þeim atkvæðum sem þeim voru greidd. Jafnframt er stuðst við eins marga aukastafi og til þarf til að leysa úr því hvort þessi samtökin eða hin fái tiltekið sæti í tilteknu kjördæmi. Þegar reiknað er hvort samtök hafi komið manni á þing skiptir því hvert greitt atkvæði máli en ekki er stuðst við námundun, hvorki til lækkunar né hækkunar, út frá þeim atkvæðum sem samtökunum voru greidd.“
Af þessu má ráða að til þess að hlutfallstala tveggja þingmanna teljist jöfn og kalli á að hlutkesti sé varpað, þá þurfi hún að vera jöfn upp á hvern einasta aukastaf.
Ef til vill upplifa kjósendur stundum að þeirra atkvæði, eitt af yfir tvö hundruð þúsund, megi sín lítils í stóra samhenginu. Það reynir þó af og til á hvert einasta atkvæði.
Hefði Sjálfstæðisflokkurinn hlotið tveimur atkvæðum færri í Reykjavíkurkjördæmi suður eða þremur fleiri í Suðvesturkjördæmi, nú eða önnur blanda þar á milli (t.d. einu færra í RVK suður og tveimur fleiri í SV), þá hefði röðun jöfnunarþingmanna breyst, og áhrifin ekki bara verið innan Sjálfstæðisflokksins.
Þannig hefði fimmti jöfnunarmaður ekki verið Jón Pétur Ziemsen í Reykjavík suður, heldur Rósa Guðbjartsdóttir í Suðvesturkjördæmi. Það hefði leitt til þess að Viðreisn hefði tekið jöfnunarmann í Reykjavíkurkjördæmi suður, þá Aðalstein Leifsson á kostnað Gríms Grímssonar í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Það hefði leitt til þess að þegar úthluta ætti áttunda jöfnunarmanninum til Sjálfstæðisflokksins, þá hefði öllum jöfnunarsætum í Reykjavíkurkjördæmi suður þegar verið úthlutað, og þar með fengi Jón Pétur ekki sæti. Þess í stað hefði flokkurinn fengið jöfnunarmann í Reykjavík norður, það er Brynjar Níelsson.